fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Hin endanlega lausn 1-4



Tæpu ári áður en seinni heimsstyrjöldin skall á af fullum þunga hafði Hitler tekist að sannfæra breska forsætisráðherrann um að Þjóðverjar væru ekki á höttunum eftir frekari ófriði. Ólíkt því þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á var engin stemmning fyrir nýju stríði í álfunni. Hitler og félagar litu á þessa stríðsfælni sem dæmi um þann vanmátt sem Þúsund ára ríkið gæti notað sér í hag.

Eftir að hafa skrifað Mein Kampf og haldið ótal ræður hafði Hitler tekist að búa til heimsmynd fyrir sjálfan sig og nasista sem blandaði saman ólíklegustu þráðum í eina risastóra hugmynd. Hitler og nasistar voru með einhverja undarlega hugmynd um heilbrigði á heilanum. Markmið þeirra var að láta samfélagið passa við þessa hugmynd. Það var ekkert pláss fyrir ögranir eða frávik. Samkynhneigðir áttu ekki að vera til og fatlaðir helst ekki heldur. Verstir voru þó Gyðingarnir. Hitler varð sífellt sannfærðari um að meira og minna öll ógæfa Þjóðverja væri Gyðingum að kenna. Þeir væru á bak við kommúnismann, þeir væru á bak við fyrri heimsstyrjöldina, þeir væru stóra vandamálið.

Nasistar ákváðu að reyna að fæla Gyðinga úr landi. Nótt eina gerðu þeir árásir á verslanir og aðsetur Gyðinga, brutu rúður og frömdu skemmdarverk. Það er kallað Kristalsnóttinn vegna glerbrotanna sem lágu eins og hráviði eftir atganginn. Margir Gyðingar forðuðu sér úr landi en alls ekki allir.

1. september 1939 lét Hitler ráðast á Pólland. Hann hafði gert samning við Satlín austur í Sovétríkjunum um að Þýskaland og Sovétríkin réður ekki hvort að öðru og myndu skipta Póllandi á milli sín. Nú varð öllum ljóst að hugmyndin um frið væri óskhyggja. Bretar og Frakkar áttu engan annan kost en að lýsa yfir stríði.

Í fyrstu var Þýskaland óstöðvandi. Hitler beitti nýjum baráttuaðferðum. Hann notaðist við „leifturstríð“ (Blitzkrieg). Í stað þess að mæta með vörubílsfarma af hermönnum sem tóku til við að grafa skotgrafir við fyrsta hentuga færi var hraði og snerpa það sem allt snerist um. venjulega komu fyrst loftárásir með sérhönnuðum sprengjuflugvélum. Flugvélarnar voru útbúnar með flautum sem ýlfruðu þegar þær gerðu árás. Það var gert til að hræða fólk. Þegar flugvélarnar höfðu lokið sér af komu skriðdrekar á fleygiferð og skutu allt í tætlur sem gat ógnað. Þá fyrst komu hermennirnir á harðahlaupum og réðust á það sem eftir var. Þrátt fyrir harða mótspyrnu Pólverja tókst Þjóðverjum að leggja landið undir sig með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Fleiri lönd fylgdu í kjölfarið.

Brátt færðist stríðið út á höfin. Þar höfðu Bretar ævinlega verið allra þjóða sterkastir. Það var þeim ægilegt áfall þegar Þjóðverjar virtust hafa breytt því. Risaorrystuskipið Bismarck átti í litum vandræðum með að tæta sig gegnum skipaflota Breta skammt vestan við Ísland. Drunurnar af skotbardaganum heyrðust alla leið til Íslenskra bæja. Þar dóu tæplega 1.500 menn á stuttum tíma. Nokkrum dögum seinna var Bismarck sökkt eftir að skipið hafði fyrir stórkostlega óheppni laskast á stýri eftir loftárás og gat ekki annað en siglt í hringi. Meira að segja þessi ófreskja hafanna var varnarlaus þegar hún gat ekki lengur ráðið för sinni. Þar dóu allir nema 114 af 2.200 manna áhöfn.

Á hátindi veldis síns hafði Þjóðverjum tekist að leggja undir sig meginhluta Evrópu. Þeir gerðu bandalag við fasistana á Ítalíu og saman kölluðust þerri ríki Öxulveldin. Þeir réðust í allar áttir, tóku Frakkland og Benelúxlöndin, löndin í Mið-Evrópu (nema Sviss), Noreg og megnið af Austur-Evrópu líka. Meira að segja Norður-Afríka varð vettvangur bardaga því það var greiðasta leiðin að miklum olíulindum í Arabíu.




 Hitler var með háleitar hugmyndir um nýja ríkið og var byrjaður að láta arkítekt sinn Albert Speer hanna nýja höfuðborg. Ofsóknir á hendur þeim sem ekki pössuðu í heimsmynd nasistanna urðu ofsafengnari og Gyðingar voru einangraðir í gettóum eða borgarhlutum sem lokaðir voru af. Strax árið 1941 hófu embættismenn nasista leit að „endanlegri lausn gyðingavandamálsins“. Í kjölfar þess voru gettóin tæmt og Gyðingar settir í fangabúðir þar sem þeim var þrælað út við vinnu, oft fyrir virt þýsk fyrirtæki, og smám saman hóft raunveruleg útrýming Gyðinga þar sem þeir sem töldust illa færir um vinnu voru rændir og myrtir.

Í svona búðir sópuðust allir „óvinir“ þýska ríkisins, raunverulegir og ímyndaðir. Þarna voru kommúnistar, samkynhneigðir, Gyðingar, erlendir aðilar og raunverulegir glæpamenn allir í einni kös. Hættulegustu og siðblindustu glæpamennirnir voru oft gerðir að hálfgildings starfsmönnum og höfðu það hlutverk að halda aga á hinum föngunum. Margar frásagnir eru til að lífinu og dauðanum í búðum af þessi tagi og eru þær allar á einn veg. Þetta voru einhverjar þær hryllilegustu aðstæður sem menn hafa boðið öðrum mönnum upp á. Fólk var drepið af engu tilefni. Pyntingar og niðurlæging var daglegt brauð. Þeir sem ekki dóu (og mjög margir dóu) vöknuðu á nóttunni til að þræla allan daginn án þess að fá nægilega hvíld eða mat. Enda vesluðust menn upp og urðu smám saman lítið annað en gangandi beinagrindur. Þegar ekki var þörf fyrir mann lengur var maður annað hvort drepinn eða látinn deyja. Sjúkdómar, hungur og sjálfsmorð voru daglegt brauð.



Vitað er um tvo Íslendinga sem lentu í slíkum búðum. Fyrir tilviljun voru þeir í sömu búðum á sama tíma. Þeir náðu þó ekki að hittast því annar dó úr veikindum áður en hinum tókst að hafa upp á honum. Sá sem lifði kom seinn aftur til Íslands og reyndi að lýsa hryllingnum fyrir þjóðinni en hún var ekki að öllu leyti áhugasöm um þessar upplýsingar. Sálfur fyrsti forseti Íslands átti son sem barðist með nasistum og gekk í hinar aldæmdu SS-sveitir sem þekktar voru fyrir hörku og grimmd. Hann sneri líka heim eftir stríð. Um það mátti heldur ekki tala mikið upphátt.
Hið sama gerðist í Þýskalandi eftir stríðið. Framanaf vildu menn sem minnst vita og áttu erfitt með að horfast í augu við það að venjulegir Þjóðverjar hefðu horft upp á margt af því sem gerðist án þess að bregðast við.

En þegar stríðið var ungt og Þjóðverjar voru enn að vinna var engin stemmning fyrir gagnrýni eða úrtölum. Börn voru sett í Hitlersæskuna, sem var ungmennafélag sem átti að gera þau hraust, hlýðin og trygg Foringjanum. Allir sem vildu verða eitthvað eða komast áfram í viðskiptum eða menningu gengu í nasistaflokkinn. Göbbels áróðursmálaráðherra tók að sér að verða menningarráðherra og stjórnaði því hvaða kvikmyndir eða tónlist almenningur fékk að sjá og heyra. Allt til þess að tryggja að þýska þjóðin væri á einni skoðun og stæði að baki Foringja sínum. Þeir sem streittust of mikið á móti voru litnir hornauga eða fjarlægðir.

En stríðið gekk ekki endalaust eins og Hitler vildi. Hann hafði augastað á svæðum austur í Sovétríkjunum og ákvað að svíkja Stalín og ráðast í austur. Nú var hann að berjast á mörgum vígstöðvum. Hann hafði látið staðar numið og ekki lagt undir sig Bretland. Bretar sem höfðu átt erfitt uppdráttar framanaf styrktust smám saman. Þeir lögðu undir sig Ísland og höfðu að bækistöð í norðri.

Framanaf vildu Bandaríkjamenn ekki sjá það að fara í annað stríð en þeir höfðu ekki um annað að velja þegar Japanir, sem gengu í bandalag með Þýskalandi og Ítalíu, réðust á bækistöð Bandaríkjanna í Perluhöfn á Hawaii. Úr varð réttnefnd heimsstyrjöld sem ólgaði um allan hnöttinn.




Árásin á Sovétríkin átti eftir að vera dýrkeypt. Hitler minnti mjög á Napóleón sem hafði líka átt stórveldisdrauma á 19. öld (en fyrir hönd Frakklands reyndar). Napóleón hafði lent í vandræðum með Rússana. Nú gerðist það sama fyrir Hitler. Sovéskir hermenn flýðu undan þýska hernum í ofboði og tortímdu öllu sem á vegi þeirra varð. Þeir brenndu bæi og eyðilögðu allan forða til að tryggja að þýski herinn þyrfti að flytja allar vistir til sín frá þýskalandi. Það teygði mjög á birgðalínu Þýskalands sem átti erfitt með að sjá til þess að herinn hefði það sem þyrfti. Að auki skall á hræðilegt veður með mikilli bleytu svo jeppar og hermenn sátu fastir. Loks kom rússneskur vetur með ægilegu frosti og illviðrum. Smám saman hægði á sókn Þjóðverja og þrátt fyrir harðar árásir þá tókst þeim ekki að leggja undir sig stærstu borgirnar sem þeir ásettu sér að ná tökum á. Þjóðverjar sátu um borgina Leníngrad í 900 daga og reyndu að svelta borgarbúa til uppgjafar án árangurs. Mörg hundruð þúsund dóu. En á endanum fjaraði þýska stríðsvélin út.

Bandamenn, en það kölluðust löndin sem stóðu saman gegn Þjóðverjum, náðu smám saman yfirhöndinni. Sovétmenn eltu þýska herinn til baka. Bandaríkjamenn færðust nær sigri á Japönum. Ítalir gáfust upp og Mussólíni var drepinn ásamt ástkonu sinni og hengdur á kjötkrók áhorfendum til skemmtunar. Bretar og Bandaríkjamenn náðu að lenda með her í Frakklandi og lögðu af stað í átt til Berlínar. Hitler lokaðist af inni í Berlín þar sem hann reyndi að finna töfralausnir til að snúa stríðinu við. Í útrýmingarbúðunum var farið að drepa fólk með áður óþekktum hraða og skilvirkni.

Hitler átti sér draum um „leynivopnið“ sem myndi tryggja honum sigur í stríðinu. Þjóðverjar voru komnir vel á veg með að þróa eldflaugar en það gekk of hægt til að bjarga nokkru. Í Bandaríkjunum var unnið að smíði kjarnorkusprengju. Nokkuð sem er kaldhæðnislegt því kjarnorkusprengjur eru skilgetið afkvæmi kenninga Alberts Einstein. Þjóðverjar voru svo óðir í að losa sig við Gyðinga að þeir töpuðu fremstu vísindamönnum sínum yfir til „óvinanna“ sem við það urðu smám saman miklu sterkari. Það var kjarnorkusprengja sem lauk seinni heimstyrjöldinni þegar tvær japanskar borgir, Hiroshima og Nagasaki, voru lagðar í rúst. Nokkru áður hafði Hitler séð að Sovétmenn myndu ná honum í Berlín og til að fyrirbyggja það framdi hann sjálfsmorð ásamt konu sinni í neðanjarðarbyrgi í Berlín. Hann vildi ekki láta ná sér eins og Mussólíni. Líkið var brennt, að minnsta kosti að hluta. Það hvarf allavega þótt sögur hafi borist af því að Sovétmenn hafi tekið bein Hitlers með sér til Moskvu. Þar var til sýnis fyrir allmörgum árum hluti af kjálka sem átti að vera af Hitler.

Göbbels fylgdi sínum ástækæra leiðtoga í dauðann. Hann og konan hans bjuggu í byrginu ásamt börnum sínum. Þau eitruðu fyrir börnunum áður en þau dóu sjálf. Reynt var að brenna lík Göbbels en olía var af svo skornum skammti að það kláraðist ekki. Líkið komst í hendur bandamanna eftir stríð.

Nasistaforingjar flýðu eins og þeir gátu og reyndu að komast undan Bandamönnum. Einhverjir sluppu og sumir settust að í S-Ameríku þar sem draumar höfðu verið uppi um þýska nýlendu. Aðrir dóu á flóttanum. Margir voru handteknir af Bandamönnum. Í borginni Nürnberg þar sem nasistar höfðu áður haldið miklar fjöldasýningar var settur upp glæpadómstóll sem dæmdi marga af nasistaforingjunum til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu. Þar hófst nýtt skeið í mannkynssögunni. Fram að því höfðu lög aðeins gilt fyrir hvert land fyrir sig. Frá og með seinna stríði er almennt álitið að lönd beri skyldur gagnvart öðrum löndum og margir valdamiklir menn hafa að endingu verið dæmdir af alþjóðlegum dómstólum. Allir mótmæla þeir eins. Að dómstóllinn ráði ekki yfir þeim og að þarna séu sigurvegararnir að hefna sín. Að einhverju leyti er það eflaust rétt.

Bandamenn ákváðu að fara öðruvísi með Þýskaland eftir seinni heimsstyrjöldina en þá fyrri. Þeir sáu að það væri hættulegt að láta gremju og reiði grassera. Þess í stað var farið í það að búa til Þýskaland sem væri vinsamlegt sigurvegurunum. Á örfáum áratugum varð Þýskaland stórveldi og er það enn. Eitt af ríkustu löndum heims með sterkt lýðræði. Fyrst um sinn skiptist Þýskaland þó í tvö ríki. Vestur-Þýskaland sem var undir áhrifum af vesturlöndum. Og Austur-Þýskaland sem var á áhrifasvæði kommúnistanna í Sovétríkjunum. Næstu árin eftir stríð notuðu Sovétríkin nefnilega af kappi við að reyna að koma kommúnismanum aftur á dagskrá. Bandaríkjamenn máttu ekki sjá það gerast og upphófst nú í raun og veru annað stríð þótt það hafi að mestu verið án blóðsúthellinga. Það kallaðist Kalda stríðið og um það fjöllum við næst.

sunnudagur, 9. febrúar 2014

Olnbogarými (Lebensraum)


Þrátt fyrir að kommúnistum mistækist að ná því markmiði sínu að koma í veg fyrir stríð með því að þjappa verkafólki í Evrópu saman gegn hinum sameiginlega óvini, arðræningjanum – varð alveg ljóst að undir lok fyrri heimsstyrjaldar var nýtt tækifæri til að innleiða nýja, spennandi stjórnmálastefnu í álfunni. Sjálft stórveldið Rússland hafði verið lagt undir kommúnisma svo úr varð nýtt heimsveldi, Sovétríkin, sem stjórnuðu atburðarás 20. aldar ásamt nokkrum öðrum voldugum ríkjum upp frá því.

Suður á Ítalíu var hinsvegar stjórnmálamaður sem taldi að þótt lýðræðið væri vissulega handótnýtt stjórnarfar þá væri kommúnisminn eiginlega verri. Þessi stjórnmálamaður sá hina blóðugu heimsstyrjöld sem einhverskonar hreinsunareld þar sem ríki Evrópu bræddu utan af sér veikleikana og út úr eldinum myndi síðan sterkasta aflið stíga. Stjórnmálamaðurinn hét Benító Mússólini. Sú stjórnmálastefna sem hann aðhylltist var fasismi.

Það er í sjálfu sér ekki of auðvelt að skilgreina fasisma. Stjórnmálum er oft skipt í hægri stefnu og vinstri stefnu og þá gjarnan með kommúnista lengst til vinstri og fasista lengst til hægri. Það má þó draga slíka skiptingu í efa. Í grófum dráttum voru fasistarnir samt greinilega á öndverðum meiði við kommúnistanna. Fasistum fannst fáránlegt að hugsa sér að sameina verkafólk eða aðrar stéttir þvert yfir landamæri þvers og kruss. Þvert á móti ættu einstakar þjóðir einmitt að standa saman og vera stoltar af þjóðerni sínu. Fasistum fannst ekkert tiltökumál þótt ein þjóð legði undir sig aðra eða færi með ófriði gegn öðrum. Þá þótti þeim nýlenduveldi (en það er þegar þjóðir ákveða að ráða yfir öðrum þjóðum, t.d. eins og þegar Danir réðu Íslandi eða Frakkar réðu Alsír) bæði sjálfsagt og eðlilegt. Þjóðir ættu að vera stoltar og sterkar – og sá sterki á að hafa meiri rétt en aðrir. Fasistar sáu líka engan tilgang í lýðræði. Þeir töldu það veikt stjórnarfar og sáu ekki tilganginn í því að allir þyrftu að hafa áhrif. Þeir töldu miklu betra að einn leiðtogi réði og tæki ákvarðanir fyrir þjóðina alla. Nú ákvað Mussólini að verða slíkur leiðtogi. Hann kallaði sig einfaldlega Il Duce sem þýðir leiðtoginn.

Fasismi hafði í einni eða annarri mynd kraumað undir í Evrópu frá því á 19. öld. Margir aðdáendir fasisma álitu hann eðlilegt og sjálfsagt viðbragð við kommúnisma, sem auðvitað varð meira og meira í tísku eftir því sem á leið. Aðrir sáu í fasisma einhverja heimspekilega dýpt og töldu sig geta lesið úr verkum frægra heimspekinga eins og Friedrichs Nietzsche áróður um að fasismi væri málið. Sú skoðun byggði meira á óskhyggju en nokkru öðru. Fasistarnir voru að mörgu leyti dálítið rómantískir. Þeim fannst gaman að klæða sig í stællega búninga og ímynda sér að þeir væru dálítið að endurreisa forna dýrð Evrópu. Á Ítalíu sóttu fasistar mikið til Rómverja. Þeir skoðuðu fornminjar á söfnum og stældu þær. Þegar Þjóðverjar fóru á fullt í fasisma stálu þeir líka frá Rómverjum. Meðal annars frægri hermannakveðju sem var þannig að maður rétti út hægri handlegginn.

Sú hugmynd að ríki væru stolt og sterk og að lýðræðið væri veikburða og gallað féll að sjálfsögðu í frjóan jarðveg í Weimar-lýðveldinu þar sem fátækt, basl og niðurlæging var daglegt brauð. Fáir menn féllur harkalegar fyrir hugmyndinni en hinn ungi Adolf Hitler sem hafði allan tímann fundist að menn hefðu alls ekki lagt sig nóg fram í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar við bættist að fólk fór að hafa verulegan áhuga á djammi, djass og drykkju fannst sumum eins og nú væri allt hið besta við samfélagið að fara til fjandans. Eins og áður sagði var þetta ekki bara bundið við Þýskaland. Í Bandaríkjunum reyndu menn að banna áfengi til að vernda fólk fyrir sjálfu sér. Ku Klux Klan og önnur furðusamtök fengu í magann yfir því að skyndilega væri svart fólk farið að stíga á svið og spila tónlist. Hvað þá að fólk af ólíkum kynþáttum væri farið að djamma og skemmta sér saman. Fram að þessu höfðu t.d. hvítir menn leikið svertingja, yfirleitt með því að maka á sig skósvertu. Al Jolson var einna frægastur „svartra“ leikara. Á sama tíma og djassin dunaði safnaði Ku Klux Klan meðlimum til að reyna að sjá til þess að hlutirnir breyttust ekki of mikið. Raunar varð þeim furðu vel ágengt.

Í Þýskalandi kölluðu fasistarnir sig nasista. Það var stytting á nafni stjórnmálaflokksins sem Hitler varð innan skammst aðalnáunginn í. Flokkurinn hét Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei sem þýðir eiginlega Þýski þjóðernissósíalsíski verkamannaflokkurinn. Af orðinu „national“ kom orðið nasismi og nasisti. Nasistarnir voru eins og áður sagði ekki minna hrifnir af Rómverjum en fasitarnir á Ítalíu en ofan í kaupið bættist að þeir þýsku töldu sig eiga dálítinn rétt á því að endurvekja forn-norræna menningu í sinni ímyndarsköpun. Þeir ímynduðu sér að áður fyrr hefði búið í N-Evrópu stolt og sterk þjóð norrænna manna sem smám saman hefði orðið veikleika og úrkynjun að bráð. Nú væri tímabært að endurreisa hið stolta, norræna samfélag. Þegar nasistar höfðu náð nokkrum völdum sendu þeir meðal annars sendimenn til Íslands, sem þeir töldu að hlyti að vera eins og öryggishólf vegna þess að landið hefði verið svo einangrað frá öðrum löndum, hér hlytu því glæsimenni og menning að vera á hverju strái. Orð fá varla lýst hve sendimennirnir voru skúffaðir þegar athuganir leiddu í ljós að Íslendingar voru engin ofurmenni heldur frekar púkalegir og venjulegir menn sem höfðu ekkert hirt um það sérstaklega að viðhalda einhverri stórglæsilegri menningu. Í staðinn fyrir Gunnar á Hlíðarenda á hverju strái þá voru hér bara venjulegir menn.

Hitler reynist hinn ágætasti ræðumaður. Hann átti auðvelt með að þykjast vera ofsalega reiður og hreif fólk með sér. Hann hafði líka fengið góðan tíma til að hugsa málin. Nasistarnir höfðu nefnilega sannfært sjálfa sig um það strax árið 1923 að þeir gætu hreinlega tekið völdin. Fram að því höfðu þetta aðallega verið Hitler og félagar að halda svaka ræður í bjórkjöllurum og labba um göturnar í einkennisbúningum. Þeir gerðu uppreisn sem brotin var á bak aftur og Hitler endaði í fangelsi. Þar skrifaði hann langa bók sem var blanda af ævisögu hans, stjórnmálaskoðunum og einhverju sem hann og aðrir nasistar töldu vera djúpa og merka heimspeki. Bókin hét Barátta mín (Mein Kampf) og á mesta uppgangstíma nasismans þurftu helst allir Þjóðverjar að eiga hana og flestir þóttust hafa lesið hana líka.

Eftir hina misheppnuðu uppreisn áttuðu nasistarnir sig á því að kannski væru til auðveldari aðferðir við að komast til valda en að fremja vopnaða byltingu. Valdhafarnir höfðu her og lögreglu sér til varnar. Þeir ákváðu því að nýta sér lýðræðið (þótt þeir væru auðvitað af hugsjónaástæðum á móti því). Hitler naut þess að eiga mikinn áróðurssnilling í Jósef Göbbels. Göbbels skipulagði og stjórnaði því með hvaða hætti almenningur fékk að sjá Hitler. Hann skipulagði líka kosningabaráttu og útifundi sem að mestu leyti lögðu grunn að meira og minna öllum kosningabaráttum fram á daginn í dag. Hitler var látinn klappa hundum fyrir framan myndavélarnar og klípa í kinnarnar á smábörnum. Hann flaug á milli borga og hélt fjöldafundi. Nasistarnir pússuðu stígvélin sín og straujuðu búningana og héldu stórar skrúðgöngur og útifundi. Göbbels fékk kvikmyndagerðarkonuna Leni Riefenstahl til að gera kvikmyndir um nasistana og þess var gætt að myndir af Hitler væru teknar neðanfrá því þannig virkaði hann stærri og voldugri (en hann var pínulítill eins og Mússólíni). Þeim sögum var komið á kreik að kvenfólkið væri vitlaust í Hitler.

Um leið fóru nasistarnir að halda á lofti þeim áróðri að ógæfa Þýskalands væri öllum öðrum að kenna en Þjóðverjum sjálfum. Það var ekki alveg vandræðalaust að búa til sannfærandi útskýringu á vanda Þjóðverja. Nasisminn, eins og annar fasismi, gekk nefnilega út frá því að sá sterki ætti að ríkja. Þjóðverjar höfðu einmitt tapað í stríði og margt af ógæfu þeirra spratt af því. Ef fasistar hefðu verið alveg fyllilega samkvæmir sjálfum sér hefðu þeir einfaldlega sagt að þeir ættu þetta bara skilið. Þeir fundu þó leið. Hún var að kenna aðskotahlutum um. Bæði kommúnisma, sem þeir töldu að veikluðu andlegt þrek þjóðarinnar, og síðan fannst þeim gráupplagt að kenna Gyðingum um. Gyðingar, sem ættaðir voru frá Miðjarðarhafi, voru hin fullkomna andstæða þess norður-evrópska mikilmennis sem Þjóðverjar héldu að þeir væru í laumi. Auk þess voru Gyðingar að mörgu leyti snjallir og duglegir kaupmenn og bankamenn. Það var því ekki sérlega erfitt að sannfæra ómenntaða, fátæka þýska verkamenn um að ekki aðeins væru þeir sjálfir hálfgerðir germanskir prinsar í dulargervi, næstum ofurmenni, heldur væru þeir blankir vegna þess að aðrir hefði eiginlega stolið peningunum þeirra.

Gyðingahatur og gyðingaandúð var ekkert nýtt. Gyðingar höfðu á ýmsum tímum verið ofsóttir í flestum löndum Evrópu. Stundum var þeim ekki leyft að reka viðskipti nema á allra verstu svæðunum. Þannig máttu þeir t.d. stunda verslun á Íslandi en ekki í Danmörku. Sem er skýringin á því að til eru verslunarhús í Reykjavík sem auðkennd eru með tákni gyðinga, Davíðsstjörnunni, og sum ættarnöfn Gyðinga eru löngu orðinn hluti af íslenskum símaskrám.

Hitler átti sér aðdáendur á Íslandi eins og víðar. Hér á landi skiptust menn dálítið í tvo hópa. Þá sem urðu sannfærðir kommúnistar og svo andstæðinga þeirra. Hörðustu andstæðingar kommúnista á Íslandi kölluðu sig stoltir nasista. Þótt flestir hafi þeir reyndar reynt að gera lítið úr því eftir að nasisminn var seinna sigraður. Þó voru nokkrir sem kölluðu sig nasista fram á grafarbakkann.

Það fór svo að nasistar komust til valda með kosningasigri. Þeir höfðu þá þegar byrjað ofsóknir á hendur Gyðingum. Áður en leið á löngu lögðu þeir lýðræðið niður og Hitler var gerður að einræðisherra. Hann kallaði sig Foringjann (Führer). Börnum var kennt að dýrka Foringjann. Og Hitler, sem einu sinni var að hugsa um að verða arkítekt, byrjaði að leggja grunn að því sem hann kallaði Þúsund ára ríkið. Þýskaland nasista átti að vera komið til að vera. Nasistar vildu gamaldags samfélag með gamaldags gildum. Þeir þoldu ekki framúrstefnulega list, nýjungagirni eða óhefðbundna hluti eins og samkynhneigð.

Þýskaland hafði alltaf verið menningarlegt stórveldi og þar voru háskólar t.d. fullir af sumum fremstu vísindamönnum heims. Háskólafólkinu og listamönnunum varð fljótt ljóst að nasistar voru ekki beint að stefna á samfélag sem þeir gátu sætt sig við. Eftir að nasistar komust til valda var stöðugur straumur af mennta- og listafólki af gyðingaættum sem forðaði sér burt. Þar á meðal Albert Einstein.

Nasistum var alveg ljóst að ríki þeirra myndi ekki standa í þúsund ár nema tryggja sér aðgengi að meiri auðlindum. Eftir fyrra stríð var landið miklu minna en áður því stór svæði höfðu verið tekin af Þjóðverjum. Nú fór Hitler að gera kröfur um að fá eitthvað af þessum svæðum til baka. Sérstaklega vildi hann fá svæði sem á bjuggu þýskumælandi menn. Svo fór að Hitler tók hluta af svæðunum til baka án leyfis. Hin ríki evrópu voru allt annað en sátt en leiðtogi Breta Neville Chamberlain fór og hitti Hitler. Hann kom af þeim fundi og sagðist hafa horft í augu Hitlers sem hefði sannfært sig um að meiri yrðu vandræðin ekki. Breski forsætisráðherrann taldi sig góðan og lét hafa eftir sér: „Það mun ríkja friður á vorum dögum.“

Á sama tíma var Hitler og nasistar að úthugsa bestu leiðina til að tryggja vöxt Þúsund ára ríkisins. Þeir þurftu lebensraum, olnbogarými. Og um leið vildu minn finna „endanlega lausn á gyðinavandamálinu“.

Áhugavert efni sem tengist ofangreindu

Al Jolson leikur svertingja

 

Hitler heldur ræðu


Íslenskur nasisti í viðtali (smella)

Neville Cahberlain semur við Hitler og tryggir „frið“