miðvikudagur, 29. janúar 2014

Mýs og menn



 Þrátt fyrir að Þýskaland skyldi ekki liðast í sundur eins og Austurríki-Ungverjaland í lok fyrri heimsstyrjaldar var ljóst að þar yrði ekki snúið aftur. Keisarinn hrökklaðist frá völdum og kommúnistar hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Þeir vildu stofna í Þýskalandi ríki sambærilegt við það sem nú var að verða til austur í Rússlandi. Þeir Þjóðverjar voru líka til sem vildu halda í keisaradæmið. Þó varð ofan á að stofna lýðveldi, með nýrri stjórnarskrá, þingi og stjórnmálaflokkum. Lýðveldið var nefnt eftir borginni þar sem stofnun þess átti sér stað, Weimar. Það kallaðist því Weimar-lýðveldið.

Weimar lýðveldið stóð óstyrkum fótum. Staða Þjóðverja var að mörgu leyti veik, ekki aðeins vegna tapsins í stríðinu – heldur líka vegna þess að ekki leið á löngu uns mikil fjármálakreppa skall á heimsbyggðinni. Upp úr þeim erfiðleikum spratt nasistaflokkur Hitlers og félaga sem að endingu afnam lýðveldið og kom aftur á raunverulegu einveldi. Nema að nú kom Foringi (þ. Führer) í stað keisara.

Raunar var þriðji áratugur aldarinnar (1920-1930) að mörgu leyti uppgangstími. Þjóðarleiðtogar töldu að hægt væri að koma í veg fyrir frekari styrjaldir og í borginni Genf í Sviss var Þjóðabandalagið stofnað. Því var ætlað að sjá til þess að þjóðir heims hefðu vettvang til að leysa ágreiningsmál án blóðugra átaka.

Framsæknar og frumlegar listastefnur eins og súrrealismi og Art Deco náðu fótfestu, djassinn blómstraði sem og skemmtana- og næturlíf. Í Bandaríkjunum var gerð misheppnuð tilraun til að stöðva áfengisdrykkju með því að banna áfengi. Það varð fyrst og fremst til þess að skipulögð glæpasamtök náðu fótfestu og fór þar mafían fremst í flokki. Meðal þess sem glæpafélögin fengust við var að brugga og selja áfengi.

Þetta var tími þöglu myndanna. Chaplin gaf út eina af sínum frægustu myndum, Strákurinn (The Kid) og fyrsta teiknimyndin um Mikka mús kom úr smiðju Walt Disney. Undir lok áratugarins, í september 1929 náði verð hlutabréfa á bandaríska hlutabréfamarkaðnum áður óþekktu hámarki.

Þá gerðist eitthvað. Fræðimenn eru ekki sammála um orsakirnar en það sem er ljóst er að á ótrúlega stuttum tíma hrundi ameríski hlutabréfamarkaðurinn með ótrúlegum hraða. Og þar sem viðskipti voru mikil á milli landa og tengsl mjög mikil dreifðust áhrifin um heiminn. Mikil kreppa (sem kölluð er Kreppan mikla) dreifðist um heimsbyggðina og gekk ekki að fullu yfir fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld, fimmtán árum seinna.

Þar sem fólk um allan heim reiddi sig á viðskipti og starfaði við iðnaðar- eða landbúnaðarframleiðslu urðu áhrifin óskapleg þegar skyndilega hættu að fást kaupendur að vörum þeirra. Borgir urðu sérlega illa úti. Landbúnaðarverkafólk lenti víða á vergangi og gekk langar vegalengdir í leit að störfum. Áhrifamikil skáldsaga John Steinbecks, Mýs og menn, fjallar um tvo slíka menn sem flakka um Kalíforníu í leit að nýjum tækifærum eftir að kreppan hafði skollið á þeim af fullum þunga.

Í Þýskalandi var ástandið gríðarlega viðkvæmt. Þjóðverjar höfðu reitt sig á lán frá Bandaríkjunum til að endurbyggja landið eftir stríðið. Nú hættu þau lán að berast. Þýskar borgir fylltust af atvinnulausu fólki. Þegar verst lét var þriðji hver Þjóðverji án vinnu. Um leið var þess krafist að Þjóðverjar héldu áfram að greiða skaðabæturnar sem þeir voru dæmdir til að greiða eftir stríðið. Veikt stjórnkerfi Weimar-lýðveldisins átti sífellt erfiðara með að standast öfgafull stjórnmálaöfl sem nýttu sér örvæntingu og reiði almennings til að skapa sjálfum sér hylli.

Þetta bættist ofan í mikla erfiðleika sem Þjóðverjar höfðu glímt við snemma á áratugnum. Þýska markið (en það hét gjaldmiðillinn) hafði í raun verið ónýtt frá 1921-1924 vegna óðaverðbólgu. Í nóvember 1923 hafði einn amerískur dollari kostað 4,210,500,000,000 þýsk mörk. Það er stundum talað um að þurft hafi að fara með hjólbörufylli af þýskum seðlum út í búð til að kaupa einn brauðhleif. Smám saman hafði þó náðst árangur við að temja efnahagsmálin og þýska markið hafði haldist stöðugt í nokkurn tíma. Ákveðið hafði verið að skera 12 núll aftan af því – þannig að eftir breytingu jafngilti eitt mark því sem verið hafði 1.000.000.000.000 mörk.

En nú skall semsagt á heimskreppa sem bitnaði sérlega illa á Þýskalandi. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér eins og allir vita.

fimmtudagur, 23. janúar 2014

Einstaklingar fæddir 1900-1919


1900-1909


1910-1919

Svarta höndin III



Viðbrögð Austurríkis-Ungverjalands við morðinu á erkihertoganum voru óvægin. Eftir að hafa tryggt sér stuðning Þjóðverja hótuðu þeir Serbum stríði nema þeir leyfðu austurrískri rannsóknarnefnd að rannsaka glæpinn. Allir vissu að það myndu Serbar aldrei gera. Og ekki bara vegna þess að háttsettir Serbar studdu Svörtu höndina með ráð og dáð. Þetta var líka spurning um virðingu. Rússar létu Austurríkismenn vita að ef ráðist yrði á Serbíu jafngilti það stríðsyfirlýsingu við Rússland. Og Frakkar tóku í sama streng. Þjóðverjar lýstu því yfir að þeir myndu styðja Austurríki-Ungverjaland ef til styrjaldar kæmi.



Allir vissu að stríð myndi bresta á. Og, það sem merkilegt er, þá einkenndust viðhorf til þess af gleði og kátínu í öllum löndum Evrópu. Breski heimspekingurinn og friðarsinninn, Bertrand Russell, lýsti því seinna hvernig hann hefði gengið niðurbrotinn um göturnar kvöldið sem Bretar drógust inn í stríðið og horft á fagnaðarlæti fólksins. Hin frábæra bók Jaroslavs Haseks um Góða dátann Svejk hefst á því að hinn vitgranni en lymskulegi dáti mætir á krána sína til að spá stríði og að hann ætli svo sannarlega að taka þátt.



Bragurinn átti þó eftir að breytast. Stríðið varð langt og ömurlegt. Það hljóp fljótt í algjöra kyrrstöðu þar sem hermenn þurftu að dvelja fótkaldir og blautir í skotgröfum mánuðum saman. Margir dóu úr sjúkdómum. Mannfallið var hryllilegt og ný, hræðileg vopn voru notuð eins og eiturgas. Loftárásir voru notaðar í stríði í fyrsta sinn að einhverju marki.



Fjórum árum seinna, árið 1918, lauk stríðinu með skilyrðislausri uppgjöf Þjóðverja. Austurríki-Ungverjaland hrundi í einstök ríki. Allir keisararnir voru hraktir frá völdum og í Rússlandi tóku kommúnistar til sín öll völd árið 1917. Evrópska heimsmyndin var gjörbreytt.



Þjóðverjar voru látnir skrifa undir mjög stranga og niðurlægjandi skilmála og þeim gert að borga sigurvegurunum skaðabætur. Þá þurftu þeir að lúta valdi nágranna sinna í ýmsum málum.

Einn austurrískur Þjóðverji var allra manna reiðastur. Hann hafði starfað sem sendiboði á vígvellinum og oft komist í hann krappann, m.a. hafði hann særst illa í eiturgasárás. Þegar stríðinu lauk var hann fastur á sjúkrahúsi og þegar hann frétti af uppgjöfinni var hann bálreiður. Honum fannst illa komið fyrir miklu veldi. Honum þótti sem menn hefðu ekki lagt sig nóg fram.

Innra með honum blundaði mikil reiði. Reiði sem endurspeglaðist með einhverjum hætti í mörgum Þjóðverjum öðrum. Hann hafði árin fyrir stríð reynt fyrir sér sem listmálari í Vínarborg. Nú biðu hans önnur örlög. Þessi ungi, feimni, kurteisi maður átti eftir að hafa meiri áhrif á samtíma sinn en nokkur annar. Hann hét Adolf Hitler.

Svarta höndin II

 '

Taktu könnun

8. bekkur
9. bekkur
10. bekkur

Enn meiri þrýstingur skapaðist á þjóðfélagsástandið í Evrópu vegna þess að kommúnismi hafði náð föstum tökum í flestum stórveldum álfunnar. Kommúnistar litu svo á að sameiginlegur óvinur væri arðræninginn, fólkið sem græddi á vinnu annarra. Meðal þeirra var stór og sterk friðarhreyfing sem barðist m.a. fyrir því að verkamenn allra landa neituðu að taka þátt í stríðum. Þetta átti eftir að vera rauður þráður í málflutningi margra fram eftir tuttugustu öld og einn liður í því að berjast fyrir samstöðu var að ýmsir lögðu það á sig að læra nýtt manngert tungumál, esperantó, til þess að ekki þyrfti að rífast um hvaða tungumál ætti að tala á fundum.



Svo fór þó að friðarhreyfing kommúnista náði ekki að koma í veg fyrir stríð – og mesti leiðtogi þeirra í álfunni var myrtur af frönskum þjóðernissinna sem, eins og margir aðrir, hafði ekkert á móti því að berjast við gamla fjendur.

Fyrri heimsstyrjöldin hófst af eins smávægilegu tilefni og mögulegt var. Til að sanna áhuga sinn á að Bosnía Hertzegóvína tilheyrði Austurríki-Ungverjalandi ákvað ríkisarfinn (sonur keisarans) að fara þangað í heimsókn. Það var erkihertoginn Franz Ferdinand. Hann kom til Sarajevó ásamt eiginkonu sinni í opinbera heimsókn. Mikill mannfjöldi stillti sér upp meðfram bökkum Miljacka-árinnar sem rennur gegnum borgina. Þeirra á meðal voru nokkrir tilræðismenn úr leynifélaginu Svarta höndin.



Svarta höndin var félag nokkurra barnungra manna sem trúðu á veldi Serbíu og voru tilbúnir að berjast fyrir þeirri sannfæringu sinni. Nú höfðu nokkrir þeirra dvalið í æfingabúðum til að læra að drepa erkihertoga. Minnstu mátti muna að tilræðið misheppnaðist algjörlega. Nokkrir guggnuðu og einn henti sprengju sem lenti í olnboga hertogans og sprakk fyrir aftan bíl hans. En síðar um daginn tók bílstjóri ríkisarfans ranga beygju og keyrði beint í flasið á Gavríló Princip, meðlimi Svörtu handarinnar. Hann lét ekki bjóða sér svona tækifæri tvisvar og skaut bæði hertogann og eiginkonu hans til bana.

Svarta höndin I




Árið 1914 var Austurríska-Ungverska keisaradæmið farið að sýna ýmis merki þess að þessi stóri risi stæði á brauðfótum. Þrátt fyrir að njóta stuðnings Þýskalands í norðri gekk ekki alltaf þrautalaust að halda saman ríkinu sem í raun var klastrað saman með því að innlima margar þjóðir í eitt ríki. Austurríki-Ungverjaland var samsett af Pólverjum, Tékkum, Austurríkismönnum, Ungverjum, Slóvökum og fleiri þjóðum. Nú þegar Ottómanaveldið riðaði til falls töldu yfirmenn hins stóra ríkis að eðlilegt væri að svæðin sem losnuðu undan Tyrkjum rynnu inn í keisaraveldið. Horfðu menn mikið til Bosníu.



En fleiri horfðu til Bosníu. Serbar, nágrannar Bosníumanna, höfðu lengi (og hafa sumir enn) geymt með sér draum um Stór-Serbíu á Balkanskaga. Og þótt Bosnía hafi alls ekki verið serbneskt ríki áður en Ottómanarnir innlimuðu það töldu ýmsir áhrifamenn í Serbíu að varla kæmi til greina að láta Austurríki-Ungverjalandi Bosníu eftir.

Ástandið í Evrópu var af ýmsum öðrum ástæðum eins og púðurtunna. Það fór ekkert milli mála að Frakkar treystu Þjóðverjum ekki fyrir horn og stóðu í Bandalagi með Bretum. Rússar voru dyggir bakhjarlar Serba. Saga Evrópu hafði verið saga næstum linnulausra styrjalda öldum saman þrátt fyrir það að kóngafólk álfunnar gerði sitt besta til að tryggja böndin. Þýski keisarinn átti ömmu sem var drottning í Englandi og frændi hans var tsar (keisari) í Rússlandi. Annað var eftir því. En kóngafólk álfunnar varð sífellt valdaminna og þótt keisararnir hafi flestir eða allir verið mjög andsnúnir stríði þá gátu þeir lítið gert til að koma í veg fyrir það.

þriðjudagur, 21. janúar 2014

Einstaklingar fæddir 1880-1899


Horfið á myndbandið. Teljið hve marga einstaklinga þið kannist við.





***

mánudagur, 20. janúar 2014

Sjúki maðurinn í Evrópu



Nikulási Rússakeisara eru eignuð þau ummæli að hið fyrrum volduga Tyrkjaveldi eða Ottómanaveldi sem teygði anga sína umhverfis Miðjarðarhaf væri orðið „sjúki maðurinn í Evrópu“ um miðja þarsíðustu öld. Ottómanaveldið náði hápunkti rétt fyrir 1600 en þá teygði það sig yfir stór svæði sem nú tilheyra Evrópu auk þess sem að þekja norðurströnd Afríku og stóran hluta Mið-Austurlanda.


Íslendingar fengu á sinn hátt að kynnast því hve langt umsvif heimsveldisins náðu árið 1627 þegar herskip full af málaliðum stunduðu mannrán á nokkrum stöðum á Íslandi. Margt fólk var flutt alla leið til Algeirsborgar í Alsír og selt þar sem þrælar. Sumt af því var keypt aftur til Íslands en aðrir dóu fljótt eða lifðu það sem eftir var erlendis.

Frá því um 1820 hafði Ottómana-veldið þó hnignað stöðugt og það skapaði allmikla spennu á þeim landsvæðum þar sem ýmsir sáu tækifæri til að varpa af sér erlendu oki í eitt skipti fyrir öll. Og svo voru auðvitað evrópsk stórveldi meira en tilbúin að sölsa undir sig það sem molna myndi af veldi „tyrkjans“.

Evrópukortið um árið 1900 var um margt frábrugðið kortum dagsins í dag. 



Eins og sjá má voru ríki álfunnar bæði færri og sum þeira mun stærri en nú er. Bar þar mikið á Rússneska keisaradæmið, hinu risastóra Þýskalandi og svo flennistóru ríki sem bar nafn tveggja ríkja sem enn eru til, Austurríki-Ungverjaland. Austurríki-Ungverjaland, eða austurríska-ungverska keisaradæmið,  var undir einni stjórn. Það var í lykilstöðu þar sem það sat um miðja álfuna og hafði mikil áhrif á ýmis smærri ríki umhverfis.


Skoðum nú suð-austurhluta Evrópu betur. Ítalía var undir stjórn konungs. Grikkland hafi losað sig undan veldi Óttómana, það höfðu Serbar, Búlgarar og Rúmenar einnig gert. Nú blasti ennfremur við að það styttist verulega í annan endann á innlimun svæðis sem kallast Bosnía-Hertzegóvína. Myndin sýnir ágætlega hvernig Bosnía var að mörgu leyti orðin innlyksa milli sjálfstæðra ríkja. Fáir hefðu kannski trúað því að smáríki suður á Balkanskaga skyldi eiga eftir að hrinda af stað atburðarás sem kostaði milljónir manna lífið og gerbreytti Evrópu til langframa.