Allir vissu að stríð myndi bresta á. Og, það sem merkilegt er, þá einkenndust viðhorf til þess af gleði og kátínu í öllum löndum Evrópu. Breski heimspekingurinn og friðarsinninn, Bertrand Russell, lýsti því seinna hvernig hann hefði gengið niðurbrotinn um göturnar kvöldið sem Bretar drógust inn í stríðið og horft á fagnaðarlæti fólksins. Hin frábæra bók Jaroslavs Haseks um Góða dátann Svejk hefst á því að hinn vitgranni en lymskulegi dáti mætir á krána sína til að spá stríði og að hann ætli svo sannarlega að taka þátt.
Bragurinn átti þó eftir að breytast. Stríðið varð langt og ömurlegt. Það hljóp fljótt í algjöra kyrrstöðu þar sem hermenn þurftu að dvelja fótkaldir og blautir í skotgröfum mánuðum saman. Margir dóu úr sjúkdómum. Mannfallið var hryllilegt og ný, hræðileg vopn voru notuð eins og eiturgas. Loftárásir voru notaðar í stríði í fyrsta sinn að einhverju marki.
Fjórum árum seinna, árið 1918, lauk stríðinu með skilyrðislausri uppgjöf Þjóðverja. Austurríki-Ungverjaland hrundi í einstök ríki. Allir keisararnir voru hraktir frá völdum og í Rússlandi tóku kommúnistar til sín öll völd árið 1917. Evrópska heimsmyndin var gjörbreytt.
Þjóðverjar voru látnir skrifa undir mjög stranga og niðurlægjandi skilmála og þeim gert að borga sigurvegurunum skaðabætur. Þá þurftu þeir að lúta valdi nágranna sinna í ýmsum málum.
Einn austurrískur Þjóðverji var allra manna reiðastur. Hann hafði starfað sem sendiboði á vígvellinum og oft komist í hann krappann, m.a. hafði hann særst illa í eiturgasárás. Þegar stríðinu lauk var hann fastur á sjúkrahúsi og þegar hann frétti af uppgjöfinni var hann bálreiður. Honum fannst illa komið fyrir miklu veldi. Honum þótti sem menn hefðu ekki lagt sig nóg fram.
Innra með honum blundaði mikil reiði. Reiði sem endurspeglaðist með einhverjum hætti í mörgum Þjóðverjum öðrum. Hann hafði árin fyrir stríð reynt fyrir sér sem listmálari í Vínarborg. Nú biðu hans önnur örlög. Þessi ungi, feimni, kurteisi maður átti eftir að hafa meiri áhrif á samtíma sinn en nokkur annar. Hann hét Adolf Hitler.




Engin ummæli:
Skrifa ummæli