fimmtudagur, 23. janúar 2014

Svarta höndin I




Árið 1914 var Austurríska-Ungverska keisaradæmið farið að sýna ýmis merki þess að þessi stóri risi stæði á brauðfótum. Þrátt fyrir að njóta stuðnings Þýskalands í norðri gekk ekki alltaf þrautalaust að halda saman ríkinu sem í raun var klastrað saman með því að innlima margar þjóðir í eitt ríki. Austurríki-Ungverjaland var samsett af Pólverjum, Tékkum, Austurríkismönnum, Ungverjum, Slóvökum og fleiri þjóðum. Nú þegar Ottómanaveldið riðaði til falls töldu yfirmenn hins stóra ríkis að eðlilegt væri að svæðin sem losnuðu undan Tyrkjum rynnu inn í keisaraveldið. Horfðu menn mikið til Bosníu.



En fleiri horfðu til Bosníu. Serbar, nágrannar Bosníumanna, höfðu lengi (og hafa sumir enn) geymt með sér draum um Stór-Serbíu á Balkanskaga. Og þótt Bosnía hafi alls ekki verið serbneskt ríki áður en Ottómanarnir innlimuðu það töldu ýmsir áhrifamenn í Serbíu að varla kæmi til greina að láta Austurríki-Ungverjalandi Bosníu eftir.

Ástandið í Evrópu var af ýmsum öðrum ástæðum eins og púðurtunna. Það fór ekkert milli mála að Frakkar treystu Þjóðverjum ekki fyrir horn og stóðu í Bandalagi með Bretum. Rússar voru dyggir bakhjarlar Serba. Saga Evrópu hafði verið saga næstum linnulausra styrjalda öldum saman þrátt fyrir það að kóngafólk álfunnar gerði sitt besta til að tryggja böndin. Þýski keisarinn átti ömmu sem var drottning í Englandi og frændi hans var tsar (keisari) í Rússlandi. Annað var eftir því. En kóngafólk álfunnar varð sífellt valdaminna og þótt keisararnir hafi flestir eða allir verið mjög andsnúnir stríði þá gátu þeir lítið gert til að koma í veg fyrir það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli