mánudagur, 20. janúar 2014

Sjúki maðurinn í Evrópu



Nikulási Rússakeisara eru eignuð þau ummæli að hið fyrrum volduga Tyrkjaveldi eða Ottómanaveldi sem teygði anga sína umhverfis Miðjarðarhaf væri orðið „sjúki maðurinn í Evrópu“ um miðja þarsíðustu öld. Ottómanaveldið náði hápunkti rétt fyrir 1600 en þá teygði það sig yfir stór svæði sem nú tilheyra Evrópu auk þess sem að þekja norðurströnd Afríku og stóran hluta Mið-Austurlanda.


Íslendingar fengu á sinn hátt að kynnast því hve langt umsvif heimsveldisins náðu árið 1627 þegar herskip full af málaliðum stunduðu mannrán á nokkrum stöðum á Íslandi. Margt fólk var flutt alla leið til Algeirsborgar í Alsír og selt þar sem þrælar. Sumt af því var keypt aftur til Íslands en aðrir dóu fljótt eða lifðu það sem eftir var erlendis.

Frá því um 1820 hafði Ottómana-veldið þó hnignað stöðugt og það skapaði allmikla spennu á þeim landsvæðum þar sem ýmsir sáu tækifæri til að varpa af sér erlendu oki í eitt skipti fyrir öll. Og svo voru auðvitað evrópsk stórveldi meira en tilbúin að sölsa undir sig það sem molna myndi af veldi „tyrkjans“.

Evrópukortið um árið 1900 var um margt frábrugðið kortum dagsins í dag. 



Eins og sjá má voru ríki álfunnar bæði færri og sum þeira mun stærri en nú er. Bar þar mikið á Rússneska keisaradæmið, hinu risastóra Þýskalandi og svo flennistóru ríki sem bar nafn tveggja ríkja sem enn eru til, Austurríki-Ungverjaland. Austurríki-Ungverjaland, eða austurríska-ungverska keisaradæmið,  var undir einni stjórn. Það var í lykilstöðu þar sem það sat um miðja álfuna og hafði mikil áhrif á ýmis smærri ríki umhverfis.


Skoðum nú suð-austurhluta Evrópu betur. Ítalía var undir stjórn konungs. Grikkland hafi losað sig undan veldi Óttómana, það höfðu Serbar, Búlgarar og Rúmenar einnig gert. Nú blasti ennfremur við að það styttist verulega í annan endann á innlimun svæðis sem kallast Bosnía-Hertzegóvína. Myndin sýnir ágætlega hvernig Bosnía var að mörgu leyti orðin innlyksa milli sjálfstæðra ríkja. Fáir hefðu kannski trúað því að smáríki suður á Balkanskaga skyldi eiga eftir að hrinda af stað atburðarás sem kostaði milljónir manna lífið og gerbreytti Evrópu til langframa. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli